Aðstæður gangandi vegfarenda

Ég er ein af þeim afskaplega fáu Íslendingum sem ekki eiga bíl. Ég tók þá ákvörðun að spara mér peningin sem færi í það að reka bíl og eyða honum frekar í eitthvað skemmtilegt í staðinn (eins og t.d. utanlandsferðir). Ég nota þ.a.l. strætó, hjól og jafnfljóta til að komast á milli staða. Ég er afskaplega sátt við mína ákvörðun og mig langar ekkert í bíl, það er hins vegar sumt sem fer í taugarnar á mér varðandi umferðamenningu hér á landi og viðhorf til gangandi og hjólandi vegfarenda. 

Ég þarf að fara yfir Hringbrautina til að komast til og frá vinnu og nota þar til gerð gönguljós til að komast yfir umferðarþunga götuna (ljósin hjá Stúdentakjallaranum). Ég sumsé ýti samviskusamlega á takkann og bíð eftir að rauða ljósið komi á, bílarnir stoppi og græni kallinn birtist. Í allt of mörgum tilfellum fara bílar yfir á þessu rauða ljósi og maður má prísa sig sæla að komast yfir heila á höldnu. Grænikallinn er líka allt of stutt og maður rétt svo kemst yfir áður en hann fer að blikka ef maður gengur mjög rösklega. Bílarnir eiga einnig að sýna tillitsemi þegar að gula ljósið fer að blikka (ásamt græna kallinum) því fólk er jú oft enn þá að koma sér yfir götuna. Margir ökumenn eru orðnir óþreyjufullir eftir þessa 1 mínútu sem að við göngufólkið höfum til að komast yfir götuna. Þetta viðhorf skapar mikla hættu og ég hef sjálf lent í því að sleppa naumlega yfir áður en það var keyrt á mig (og það var sko bílstjórinn sem flautaði á mig, já ég var víst að frekjast yfir á mínum græna kalli!). Ég hef oft velt því fyrir mér hversu hættulegt það er fyrir börn að fara þarna yfir. Börn eru jú minni og oft erfitt að koma auga á þau þegar þau skjótast yfir á þessum stutta tíma sem að græni kallinn logar. Einnig hef ég að velta fyrir mér hvernig þetta er fyrir eldra fólk. Eldra fólk fer jú hægar yfir en við unga spræka fólkið sem getum forðað okkur undan ágengni og frekju bílstjóra. Gamla fólkið kemst kannski rétt á miðjuna og þarf að bíða þá þar þangað til að umferðin hægist, eða að einhver annar þurfi að komast yfir, því það er jú ekki hnappur í miðjunni! Ég er því ansi hrædd um að einn daginn (og Guð forði okkur frá því!) muni vera ekið á gangandi vegfaranda á þessum gönguljósum (og ef ekki öðrum gönguljósum). Til að koma í vegfyrir slíkt þarf að lengja tímann sem að fólk hefur til að komast yfir götuna og setja hnapp í miðjuna. Einnig þyrfti jú að bæta því við í ökukennsluna að kenna ökumönnum þolinmæði gagnvart gangandi vegfarendum.

Svo er það annað sem fer í taugarnar á mér og það eru gangbrautir. Svo virðist sem að ökumenn gleymi því um leið og skírteinið er komið í hendurnar að bílum ber að stoppa á gangbraut og hleypa gangandi vegfarendum yfir. Það er meira að segja hægt að fá punkt í ökuskírteinið fyrir að gera það ekki!

Þegar það er rigning þá vantar einnig alla hugsun í ökumenn. Það er eins og það sé markmið þeirra að keyra í rásunum og skvetta sem mestu yfir þá sem þræða gangstéttirnar. Ótrúlegt alveg, ég veit ekki hversu oft ég hef lent í því að vera spreyjuð, og það af heilu bíla rununum. Það versta er að maður getur sjaldnast forðað sér því að gangstéttirnar eru þröngar og ekki hoppar maður á húsin!

Svo er það aðstaða fyrir hjólreiðamenn í miðbænum. Það vantar stæði fyrir hjól, eða þar til gerðar grindur til að hægt sé að læsa hjólunum.

Síðast en ekki síst þá er það strætó. Það er eins og það sé lagt mikla áherslu á það að gera það sem ömurlegast svo að allir kaupi sér nú bara bíl. Svifryksmengun er vandamál og vegirnir eru að komast á síðasta snúning með að anna umferð og lausnin er að fækka strætóferðum og hækka gjöldin. Ég átta mig enganvegin á þessu strætó veseni, það vantar allt kommon sens í þá sem taka þessar ákvarðanir. 

Þegar öllu er á botnin hvolft þá finnst mér vanta virðingu gagnvart þeim sem hafa ákveðið að reka ekki bíl, ganga, hjóla eða taka strætó í staðinn. Markmiðið ætti að vera að fjölga þessu fólki en ekki að fækka því. Það eru allir að tala um mengun, gróðurhúsaáhrif og slíkt og allir vilja bæta ástandið (eða flestir þ.m.t. yfirvöld) en samt er verið að ýta undir, með þessum aðgerðum (eða skort á þeim), aukna umferð og bílnotkun. 

Ég skora á stjórnvöld að fara að hugsa sinn gang í þessum málum.  

Vera  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband