Kosningar

Það verða nægar spennandi kosningar í maí. Fyrst verður það seinni umferð forsetakosningana í Frakklandi, síðan Alþingiskosningarnar 12. maí og svo stúdentakosningar í Austurríki. Ég mun fylgjast spennt með öllum þessum kosningum, verð þó að viðurkenna að ég hef ekki fylgst nógu vel með forsetakosningunum í Frakklandi en ég get þó sagt það að hvorugur kandídat er nógu frjálslyndur fyrir mig. 

Ég mun að sjálfsögðu vaka frameftir og fylgjast með niðurstöðum Alþingiskosninganna, ég hef loksins gert upp hug minn og ákveðið hvað ég ætla að kjósa. Ég veit í raun ekki hvernig ríkisstjórnarsamstarf ég vil, ég er orðin frekar þreytt á núverandi ríkisstjórn og mig langar að sjá hvort að eitthvað muni breytast með nýrri ríkisstjórn. Annars bara veit ég það ekki, ég vil fá umræðuna um Evrópumálin á dagskrá, því fyrr því betra. EES samningurinn fer að verða úreldur og ef við ætlum að reyna að fá undanþágur þá er nú best að fara að vinna í þessu núna annars getum við bara gleymt undanþágum.

Síðan eru það stúdentakosningarnar í Austurríki sem ég fæ beint í æð frá mínum manni. Ég vona innilega að LSF gangi vel í kosningunum enda eru plaggötin í kosningaherferðinni alveg frábær! Ég naut þeirra forréttinda að vera með þeim fyrstu sem fengu að sjá hvernig þau myndi líta út og vá, ég kolféll fyrir hugmyndinni, endalaust töff. Þetta er mynd af aspirín pakkningu með áletruninni "fyrir frelsi, fjölbreytni og sjálfsákvörðunarrétt". Ógeðslega töff.

Ég verð að viðurkenna að ég hef afskaplega lítið fylgst með kosningabaráttunni fyrir Alþingiskosningarnar (sem er í raun skammarlegt þar sem ég er nú einu sinni að læra stjórnmálafræði). Hinsvegar finnst mér bara kosningabárátta eitt það leiðinlegasta sem ég veit um. Ég fór bara og las stefnuskrár flokkana og "kosningaloforðin" og valdi svo bara samkvæmt því hvað ég ætla að kjósa. Mér finnst kosningabaráttan fara oft á svo lágt plan, alveg fyrir neðan allar hellur. Stundum minna kandídatarnir mig á börn í sandkassaleik, börnin eru þó skárri því þau eru ekki eins lágkúruleg og margir stjórnmálamenn. 

Svo er annað sem ég þoli ekki (sem ég hef sloppið við að mestu þó), og það eru meðlimir flokkana sem reyna að sannfæra mann um ágæti síns flokks. Ég meina gott og vel, ég skil að fólk vilji sannfæra sem flesta um sinn flokk og ágæti hans, en ég er bara þannig að því meira sem þú reynir að sannfæra mig, því meiri andúð fæ ég á flokknum. Ég sagði við einn vin minn sem sagðist muna líklega hringja í mig fyrir kosnignar "æi nei ekki gera það, þá kýs ég ykkur alls ekki, ef þú hinsvegar lætur mig í friði þá gæti það mögulega gerst". Hann ákvað að sleppa því að hringja í mig og er ég honum mjög fegin. Ég þarf ekki á því að halda að það sé hringt í mig í miðri prófatörn "Góða kvöldið ........ heiti ég og er að hringja frá...." Ég myndi snappa í símann, ausa yfir greyið manneskjuna fúkyrðum (og manneskjan ætti það ekkert skilið, nema hún sé ein af flokksbundnum vinum mínum og þá, já þá er voðin vís).

Þannig að elskulegir flokksmenn stjórnmálaflokka, EKKI hringja í mig þegar þið eruð farin að örvænta og farin í það að hringja í taugatregta kjósendur. Ég er hvort eð er búin að ákveða mig og það fer engin að hagga því!

En jæja, bælið kallar enda þarf ég að vakna snemma og lesa um nútímavæðingu að hætti Ingleharts og Welzels og reyna að skrifa um þróun Evrunar. 

Lifið heil og reynið að halda sönsum í brjálæðinu!

Vera  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband