
Nú er ekki talað um annað en efnahagsástandið á landinu, fall krónunnar og þjóðnýtingu Glitnis. Það er eins og ekkert annað eigi sér stað lengur. Núna liggur þjóðin bara í þynnku eftir eyðslufylleríið og vonandi að fólk fari bara að spara. Ég var nefnilega að lesa það í hagfræðinni að sparnaður auki hagvöxt til skemmri tíma og því er ég farin að spara.
Annars er bara gott að frétta af mér, ég mun standa af mér kreppuna, enda er ég ekki með neitt bílalán eða húsnæðislán múhahahahaha!

En svona í alvöru talað, ætlar ríkisstjórnin ekki að fara að stunda almennilega hagstjórn og koma á almennilegri peningamálastefnu? Væru það ekki svik við velferð þjóðarinnar að hefja ekki aðildarviðræður við ESB, ég meina við þurfum ekkert að ganga þangað inn, en það má alveg ræða við ráðamenn í Brussel. Við töpum sko ekkert á því OG fréttir um það gætu haft jákvæð áhrif á markaðina hérna heima. Ráðamennirnir í Brussel hafa líka góð ráð um það hvernig hægt er að temja verðbólguna og auka stöðugleika gjaldmiðla og við hefðum bara gott af því að fá smá ráðleggingar. Ég tel líka að Seðlabankastjóri mætti fara að hlusta á ráðleggingar hagfræðinga, Davíð þú ert vissulega vitur maður og klár á ýmsum sviðum, en það þýðir ekki að þú vitir ALLT og hafir ALLTAF rétt fyrir þér. Ef þér er annt um Íslendinga, opnaðu þá eyrun og augun og hlustaðu á fólkið í landinu og helstu sérfræðinga á sviðum efnahags og peningamála.
Margir vilja kenna einkavæðingunni um ástandið í dag en ég held að vandamálið liggi í þeirri staðreynd að með einkavæðingunni breyttust aðstæður og því skapaðist þörf á nýjum aðferðum við hagstjórn og í peningamálastefnu landsins. Einnig kemur alltaf ákveðin niðurtúr eftir svona rosalegan hagvöxt og skuldasöfnun einstaklinga. Ég held að allir þeir sem hafa lifað um efni fram, tekið lán fyrir öllu og rétt svo haft tök á því að borga af lánunum, ættu að líta í eigin barm. Það er ekki ríkinu að kenna að fólk hafi safnað upp skuldum.
Að lokum vil ég biðja Guðna og aðra Framsóknarmenn að líta sér nær þegar þeir gagnrýna ríkisstjórnina og Sjálfstæðisflokkinn. Ég veit ekki betur en að Framsókn hafi verið í ríkisstjórn frá árinu 1995-2007 á einum mestu uppgangs og framkvæmdaárum landsins. Framsókn ber alveg jafn mikla ábyrgð á ástandinu í dag og Sjálfstæðisflokkurinn. Bara svo að það sé á hreinu!
Vera
Bloggar | Fimmtudagur, 2.10.2008 (breytt kl. 22:00) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)