Opið bréf til ríkisstjórnarinnar

Hér er bréf sem að ég fékk birt í morgunblaðinu föstudaginn 21. ágúst 2009. 

 

Kæra ríkisstjórn,

 

Í dag er ég reið, ég er reið og sár. Ég á erfitt með að átta mig á því hvað fer fram í hugarskotum ykkar sem stjórna landinu. Okkur menntafólki er bókstaflega bolað úr landi. Menn tala um spekileka sem mun væntanlega hafa varanleg áhrif á landið. Í dag á ríkið enga peninga, bókstaflega enga peninga, eini auðurinn sem að við Íslendingar búum að er mannauðurinn. Við höfum nefnilega gríðarlegt úrval af vel menntuðu og kláru fólki. Hins vegar er svo vegið að þessu fólki í dag að það sér sér ekki fært að búa hérna, hag þess er betur borgið í útlöndum þar sem borguð eru mannsæmandi laun og tækifærin eru til staðar. Það er ekki nóg með að landið sé blóðmjólkað fjárhagslega heldur er mannauðurinn hægt og bítandi að fjara út líka. Verður það svo að eftir 10 ár verður Ísland ekki lengur hamingjusamasta og vel menntaðasta þjóð í heimi? Verður Ísland meðal þeirra verst settu?

 

Nú tala erlendir jafnt og innlendir spekingar um það að mannauðurinn og menntastig þjóðarinnar sé einmitt lausn fjárhagskreppunnar. En kæra ríkisstjórn, hvað gerið þið í því? Þið hækkið á okkur skatta, hækkið atvinnuleysisbætur svo að fólk sér sér betur borgið á bótum en að vinna láglaunastörf. Þið, kæra ríkisstjórn eruð að ýta undir misnotkun á kerfinu, misnotkun á mínum skattpeningum!

 

Sjálf er ég háskólamenntuð og ríkisstarfsmaður, ekki glæsileg kjör þar frekar en fyrri daginn. Aðhald í ríkisrekstri er staðreynd og hvar er þá byrjað? Losna við lausráðna ríkisstarfsmenn og hvetja starfsmenn sem eru að komast á aldur til að fara á eftirlaun. Fækka stöðugildum á þeim sviðum þar sem að álagið er mest, færa til verkefni, auka vinnuálag. Og hvert fara svo þeir starfsmenn sem að missa vinnuna? Jú á atvinnuleysisbætur eða eftirlaun, allt borgað úr sama kassanum. Aðrir fara jú úr landi, það er sparnaður! Er spekileki kannski ríkissparnaður?

 

Hvernig væri að spara á öðrum sviðum? Þurfa hinar ýmsu stofnanir og starfsmenn bíl á vegum ríkisins? Hvað með allar þessar ráðstefnur erlendis og dagpeninga? Þarf alla þessa yfirstjórnendur?

 

Kæra ríkisstjórn, ég hef ákveðið að spara ykkur pening og flytja úr landi sem fyrst. Nýta menntun mína þar sem að hún er metin að verðleikum, þar sem að ég fæ mannsæmandi laun.

 

Til hamingju með spekilekann!


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Pétur Pétursson

flott grein. Þetta er eitt af því sem að mun klárlega lengja í kreppunni hér á Íslandi og draga verulega úr lífsgæðum það er fólksflótti. Bara frá hagfræðilegu sjónarhorni, eftir því sem mun fleiri fara, þeim mun færri verða eftir til þess að borga skatta. Það versta er að þetta er eins og þú segir vel menntað fólk sem að er að fara. En skattheimta og niðurskurður, það eru þau úrræði sem að vinstri menn hafa beitt áður og það virðist vera einu úrræðin sem að þessi guðsvolaða ríkisstjórn hefur.

Jóhann Pétur Pétursson, 13.9.2009 kl. 23:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.