Áfengisfrumvarpið

Þá er komið að jólaprófatörninni og því tilvalið að blogga (er það ekki annars?).

Ég hef verið mikið að pæla í lagafrumvarpinu sem myndi leyfa verslun með léttvín og bjór í matvöruverslunum og rökunum á móti því (þar sem ég er nú einu sinni hlynnt því). Mér finnst stundum eins og andstæðingar þessa frumvarps gleymi að hugsa fram fyrir nefið á sér. Vissulega er rétt að hafa áhyggjur af því hvaða áhrif þetta hefur á unga fólkið og hvort að það hafi þá auðveldari aðgang að áfengi en áður o.s.frv. Þar sem að ég er nú tiltölulega ný komin af "unglingaskeiðinu" þá hef ég góð og gild svör við þessu.

Ég skal fúslega viðurkenna það að ég smakkaði áfengi og varð full mjög ung, í raun allt of ung. Ég fór á þvílíkt þvermóðskuskeið að hálfa væri hellingur. Ég held að hluti af því að hafa prófað að "detta í'ða" svona snemma hafi einmitt verið þessi spenna við prófa áfengi, sem var eitthvað svo fjarlægt og auðvitað algjörlega bannað. 

Ég held að þetta sé mjög stór þáttur í því að unglingar á Íslandi byrja mjög snemma að drekka, áfengi er eitthvað eingöngu fyrir fullorðna í búð sem að unglingar eru síður en svo velkomnir inn í, og því verður áfengið sjálft og það að byrja að drekka svo spennandi. Unglingar fá þær ranghugmyndir í hausinn að það sé töff að geta sagt jafnöldrunum að þeir hafi farið á fyllerí, prófað landa (sem er jú algengasta alkóhólið sem unglingar komast í) o.þ.h. Það að hafa áfengi jafn óaðgengilegt eins og það er, er augljóslega ekki að virka til að sporna gegn unglingadrykkju. Unglingar munu alltaf komast yfir áfengi ef þeir óska þess, svo einfalt er það. Það sem skiptir máli er að unglingar fái rétta fræðslu um áfengi og ekki bara hræðsluáróður.

Ég á mjög marga vini sem eru frá meginlandi Evrópu og hafa alist upp við að vín sé borið fram með mat og sé eðlilegur hluti af menningunni, heimilis- og veitingastaða venjum. Margir þeirra fengu að smakka vín með matnum þegar þeir voru 12-13 ára, og þá í hóflegu magni að sjálfsögðu (við erum að tala um halft glas kannski). Flestir þessara vina minna höfðu fram til 17-18 ára aldurs einungis fundið fyrir smá áhrifum af áfenginu en aldrei orðið fullir. Það var ekki fyrr en í kringum þennan aldur, 17-18 ára, sem að þessir krakkar fóru á sitt fyrsta fyllerí. Mér finnst það heldur betri aldur heldur en að byrja 14-15 ára eins og unglingar eiga til hér á landi. 

Ég er ekki að segja að foreldrar eigi að fara þessa sömu leið og tíðkast erlendis að gefa börnum sínum vín með mat. Heldur finnst mér að foreldrar eigi ekki að fela sína drykkju fyrir börnum sínum (þá er ég að meina, fá sér 1-2 vínglös með mat, bjór yfir boltanum o.þ.h.). Þannig kynnast börn og unglingar "æskilegri" notkun áfengis (er ekki smá drykkja með mat æskilegri en haugafyllerí um helgar?). 

Einnig tel ég að það eitt að áfengi sé í matvörubúðum á mun aðgengilegri stað heldur en í vínbúðunum geri það einfaldlega minna spennandi. Léttvín og bjór verður bara eitthvað sem er við hliðina á kókinu. Ef unglingurinn er forvitinn þá getur hann að minnsta kosti virt herleg heitin fyrir sér, en þarf ekki að deyja úr forvitini yfir því hvernig þetta lítur allt saman út eða hvaða tegundir eru til.

Börn og unglingar eru einfaldlega þannig að það sem er bannað og er fjarlægt verður bara meira spennandi. Þegar ég var 9-13 ára þá var það flottast ef að maður hafði horft á mynd sem var bönnuð innan 16. Maður var kannski alveg að skíta á sig af hræðslu og ógeði yfir því sem var að gerast í myndinni, fyrir utan það að skilja ekki helmingin af söguþræðinum, þá var þetta svo kúl og ýkt flott að maður sóttist í að fá a.m.k. að prófa (ég er ekki að segja að það eigi ekki að banna myndir fyrir ákveðin aldur). Það sama má segja um útivistarbannið og önnur bönn. Bara af því að það var bannað þá var það svo ógeðslega spennandi. Ég held að það sama eigi við um áfengi, ef það er sýnilegt og ekki er farið í felur með neyslu þess (ég er ekki að segja að unglingar eigi að horfa upp á fullorðna ofurölvi, ég er að tala um eðlilega hluti eins og vín með mat) þá held ég að það verði bara minna spennandi.

Ef að frumvarpið fer í gegn þá hugsa ég að unglingadrykkja fari aðeins vaxandi svona til að byrja með, þar sem að það verður að sjálfsögðu aðeins auðveldara fyrir unglinga að komast yfir áfengi og sú kynslóð unglinga sem nú lifir við bann og leyndardóm áfengis mun að sjálfsögðu svala forvitninni. Ég er fullviss um það að til langtíma muni það hafa jákvæð áhrif að hafa áfengi sýnilegra og aðgengilegra. Ég hugsa að unglingar byrji seinna að drekka og ég tel að vínmenning landans muni fara batnandi. 

Að lokum mæli ég með færslu Hannesar H.G. um þetta sama mál. Ég gæti ekki verið honum meira sammála í þessu máli.  

Ég held að ég hafi ekki getað setið á mér lengur með að lýsa skoðunum mínum um þetta mál þar sem ég er búin að vera að lesa um áfengisbannið og aðdraganda þess. En jæja þá er best að halda áfram að læra, fyrsta próf á morgun!

Vera 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Æ ég veit það ekki Vera. Finnst þér drykkjumenning Ísleninga vera þannig að við höfum eitthvað gott af því að fá aukin aðgang að áfengi? Það er ekki bara unglingadrykkja sem er málið heldur eru Íslendingar þekktir fyrir það að drekka illa og mikið og fullorðið fólk er ekkert betra í þessum efnum en unglingarnir. Auðvitað væri það frábært ef að Íslendingar gætu drukkið til þess að njóta áfengisins sem slíks en ekki til þess að detta í það.

Almennt er ég algerlega á móti foræðishyggju frá hinu opinbera en á meðan að drykkjuvenjur Íslendinga eru ekki betri en raun ber vitni þá held ég að við höfum ekkert við ódýrara áfengi að gera eða aukið aðgengi að því.

Jóhann P (IP-tala skráð) 10.12.2007 kl. 20:40

2 Smámynd: Vera Knútsdóttir

Fólk kemst alltaf yfir áfengi ef það vill fá áfengi. Einnig hefur það orðið svo að drykkjumenning Íslendingar hefur aðeins batnað eftir að bjórinn var leyfður.

Mér finnst það bara vera mitt frelsi að geta valið hvar ég kaupi mitt áfengi. Ég vil ekki vera bundin við það að þurfa að versla við ríkið. 

Ég er ekkert viss um að ástandið versni við það að áfengi sé selt í venjulegum búðum. Eins og ég segi þá á ég fullt af vinum sem hafa alist upp við það að sjá áfengi í verslunum og ekki er þetta fólk skemmt. Ef að drykkjumenning er svona ómöguleg hérna á Íslandi, eigum við þá ekki bara að banna þetta med det samme?

Vera Knútsdóttir, 15.12.2007 kl. 12:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband